jump over navigation bar
Embassy SealUS Department of State
U.S. Embassy Reykjavik, Iceland - Home flag graphic
 
policyhead.gif
 
  Fréttir frá Washington Skýrslur

Skýrslur

Landsskýrsla um mannréttindamál - 2003
Gefin út af stjórnardeild lýðræðis, mannréttinda- og atvinnumála
(Bureau of Democracy, Human Rights, and Labour)
25. febrúar 2004

Ísland

Ísland er stjórnarskrárbundið lýðveldi og þingbundið lýðræðisríki þar sem landsmenn kjósa sér fulltrúa í frjálsum og réttlátum fjölflokka kosningum með reglubundnu millibili. Niðurstaða kosninga í maí veitti Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum umboð til að mynda að nýju ríkisstjórn undir forystu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Dómsvaldið er sjálfstætt og óháð.

Kjörnir embættismenn höfðu yfirstjórn með lögregluliði sem bar ábyrgð á innra öryggi í landinu. Enginn her var í landinu. Fáeinir aðilar innan lögreglunnar frömdu einstaka mannréttindabrot.

Hið opna hagkerfi skapaði landsmönnum mjög góð lífskjör. Íbúafjöldi var um 288.000; verg landsframleiðsla á árinu 2002 var í allt 9 milljarðar Bandaríkjadala, dróst saman um 0,5 prósent frá fyrra ári. Um 40 prósent af útflutningi landsins var fiskur og aðrar sjávarafurðir; álframleiðsla var önnur stærsta útflutningsgreinin.

Stjórnvöld virtu almennt mannréttindi landsmanna og löggjöfin og dómsvaldið kváðu á um aðferðir til að takast á við einstaka tilvik um misnotkun. Í örfáum tilvikum var um misþyrmingar af hálfu lögreglu að ræða, sem og órökstudda handtöku og varðhald. Félagsleg mismunun sem minnihlutahópar og útlendingar urðu fyrir skapaði vandamál. Greint var frá verslun með konur til landsins í nokkrum tilvikum.

VIRÐING FYRIR MANNRÉTTINDUM

1. hluti              Virðing fyrir einstaklingnum þar með talið vernd gegn eftirfarandi:

a)  Órökstuddu eða ólögmætu lífláti

Hvergi var greint frá órökstuddu eða ólögmætu lífláti á vegum stjórnvalda eða fulltrúa þeirra.

b)  Brotthvarfi

Hvergi var greint frá brotthvarfi af pólitískum ástæðum.

c)  Pyntingum og annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Slíkar aðferðir eru bannaðar með lögum og hvergi kom fram að þeim hafi verið beitt af embættismönnum á vegum hins opinbera. Við endurskoðun á landsskýrslunni í maí við innleiðingu á sáttmála gegn pyntingum vakti nefnd S.Þ. gegn pyntingum athygli á því að löggjöfin skilgreini hvorki né banni afdráttarlaust pyntingar og banni ekki að dómstólar noti sönnunargögn sem aflað hefur verið með pyntingum; svar ríkisstjórnarinnar var að löggjöfin banni pyntingar og að hvergi sé getið um að lögreglan beiti pyntingum.

Í desember var lögregluþjóni í Reykjavík sagt upp störfum eftir að réttur dæmdi hann sekan fyrir að nota að ástæðulausu piparúða við handtöku í marsmánuði (sjá d-lið 1. hluta).

Ástand í fangelsum var almennt í samræmi við alþjóðlega mælikvarða, og ríkisstjórnin heimilaði óháðum mannréttindasinnum að heimsækja þau. Rauði kross Íslands annaðist reglubundnar heimsóknir til fanga og umboðsmaður Alþingis fylgdist með ástandi í fangelsismálum.

Flestir hinna 110 fanga á landinu voru vistaðir á Litla-Hrauni en þar er fyrsta flokks fangageymsla; fangelsisyfirvöld notuðu þó fangelsi sem uppfyllti ekki sett skilyrði (Hegningarhúsið, byggt 1874), en þar er hvorki salerni né vaskur í hinum 16 einstaklingsklefum. Í flestum tilfellum voru fangarnir aðeins vistaðir í Hegningarhúsinu í stuttan tíma á meðan mat og málsmeðferð fór fram, og voru síðan fluttir á annan stað.

Ríkisstjórnin hélt áfram rekstri sérstaks fangelsis með lágmarks öryggisráðstöfunum fyrir kvenfanga; en þar sem fáar konur sættu fangelsisvist voru einnig nokkrir karlar, sem hlotið höfðu dóm fyrir annað en ofbeldisglæpi, vistaðir á sama stað. Afbrotaunglingar, 15 ára eða eldri, gátu hlotið fangelsisdóm, en mikill meirihluti þeirra hlaut skilorðsbundinn dóm, niðurfellingu dóma eða var sendur í meðferð. Í þeim örfáu tilvikum sem afbrotaunglingar voru fangelsaðir voru þeir vistaðir með fullorðnum þar sem sérstök aðstaða fyrir unglinga var ekki fyrir hendi. Stjórnvöld færðu rök fyrir því að ekki væri hagkvæmt að reka slíka aðstöðu þar sem unglingar sættu fangelsisvist í svo fáum tilvikum.

Löggjöfin heimilar að gæsluvarðhaldsfangar séu vistaðir meðal dæmdra fanga. Í maí efndu stjórnvöld til útboðs vegna nýs fangelsi í nágrenni Reykjavíkur sem á að vera tilbúið til notkunar árið 2005.

Í endurskoðuninni sem fram fór í maí lét nefnd S.Þ. gegn pyntingum einnig getið um beitingu einangrunarvistunar fyrir gæsluvarðhaldsfanga. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að breytingar á löggjöfinni væru óþarfar því að þar væri aðeins kveðið á um einangrunarvistun við tilteknar aðstæður og í hófi. Á árinu höfðu 55 af 69 einstaklingum sem settir voru í gæsluvarðhald dvalið í einangrun um einhvern tíma, að meðaltali í 11 daga. Í mars bað umboðsmaðurinn fangelsisyfirvöld að gera ráðstafanir til að tryggja viðeigandi læknismeðferð fyrir fanga í einangrunarvistun. Ástæða þess var kvörtun sem fangi lagði fram í október 2002, en beiðni hans um að fá að hitta geðlækni var hafnað. Umboðsmaðurinn gagnrýndi kæruleysi embættismanna, og fangelsisyfirvöld hófu að endurþjálfa starfsfólk í réttum starfsháttum til að standa vörð um velferð fanga.

d)  Órökstudd handtaka, varðhald eða útlegð

Stjórnarskráin bannar órökstudda handtöku og varðhald, og almennt er þetta bann virt af stjórnvöldum.

Dómsmálaráðherra er yfirmaður lögreglunnar. Embætti Ríkislögreglustjóra hefur yfirstjórn með og stýrir lögregluaðgerðum sem krefjast miðstýrðrar samræmingar meðal ýmissa embætta. Sérhver lögreglustjóri ber ábyrgð á að lögum sé framfylgt í sínu umdæmi, rannsakar lögbrot og hefur vald til að ákæra. 

Lögreglunni er einungis heimilt að beita handtöku þegar sterkur grunur leikur á að einhver hafi framið lögbrot eða þegar einhver neitar að hlýða tilmælum lögreglu. Einstaklingar sem hnepptir eru í varðhald eiga rétt á lögfræðilegri aðstoð, þeir fá eyðublað til undirskriftar þar sem þeim er kynntur réttur sinn og möguleikar, og eru innan 24 klst. frá handtöku leiddir fyrir dómara sem úrskurðar hvort þeir skuli sæta áfram í gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur.

Í desember dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur tvo lögregluþjóna í Reykjavík seka um óréttmæta handtöku og rangan vitnisburð gegn 23 ára gömlum manni sem settur var í gæsluvarðhald 8. mars og þrítugum manni sem settur var í gæsluvarðhald 9. mars. Þeir hlutu óskilorðsbundinn fangelsisdóm, annar í 2 mánuði og hinn í 5 mánuði; þyngri dóminn hlaut lögregluþjónn sem einnig var fundinn sekur um að nota piparúða.

Löggjöfin bannar þvingaða útlegð og stjórnvöld beittu ekki slíku.

e)  Neitun um sanngjörn réttarhöld

 Stjórnarskráin og löggjöfin kveða á um óháð dómskerfi og stjórnvöld virtu þetta ákvæði almennt.

Tvö dómsstig eru fyrir hendi: Fimm manna dómstólanefnd, sem hefur með höndum yfirstjórn stjórnsýslu hinna átta héraðsdómstóla, og Hæstiréttur. Dómsmálaráðherra tilnefnir aðila í dómstólanefnd og Hæstarétt; allir dómarar á öllum stigum hljóta æviráðningu.

Löggjöfin kveður á um réttinn til sanngjarnra réttarhalda og óháð dómsvald framfylgdi þessum rétti almennt. Kviðdómar eru ekki notaðir en fjölskipaðir dómar eru algengir, einkum í Hæstarétti þar sem fjallað er um allar áfrýjanir. Sakborningar eru álitnir saklausir og almennt fara réttarhöld fram án tafar. Sakborningar mega ráða sér lögmann að eigin vali. Ríkið stendur straum af lögfræðikostnaði þeirra sakborninga sem ekki geta greitt hann sjálfir; sakborningar sem dæmdir eru sekir eru þó krafðir um endurgreiðslu til ríkisins. Sakborningar eiga rétt á að vera viðstaddir réttarhöldin gegn þeim, fylgjast með vitnaleiðslum og taka þátt í málsmeðferðinni. Réttinum er í sjálfsvald sett að leyfa saksóknara að leggja fram sönnunargögn sem lögregla hefur aflað með ólögmætum hætti. Réttarhöld eru opinber og fara heiðarlega fram, með fáeinum undantekningum þó. Sakborningar eiga rétt á að áfrýja og Hæstiréttur tekur áfrýjanir fljótt fyrir.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði að Hæstiréttur hefði brotið gegn 1. mgr. 6 gr. (réttinum á sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli) í Mannréttindasáttmála Evrópu í meðferð sinni á tveimur málum. Í fyrra málinu, en úrskurður í því féll í apríl, ásakaði sakborningur dómara um hlutdrægni þar sem eiginmaður dómarans hafði gengist í ábyrgð fyrir nokkrum lánum sem sakborningur hafði ekki staðið skil á. Í seinna málinu, sem úrskurðað var í í júlí, hafði Hæstiréttur snúið við sýknudómi héraðsdóms og dæmt fangelsisvist á grundvelli endurmats á munnlegum vitnisburði sem gefinn var í héraðsdómi án þess að hlusta á vitnisburð vitna eða sakbornings.

Hvergi var greint frá pólitískum föngum.

f)  Órökstudd afskipti af einkalífi, fjölskyldu, heimili eða bréfaviðskiptum

Stjórnarskráin bannar slíkar aðgerðir og stjórnvöld virtu almennt þetta bann.

Vísindamenn og sjálfstætt starfandi lögmenn héldu áfram að gagnrýna þá ákvörðun stjórnvalda að semja um gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði við einkafyrirtæki sem rekið er í hagnaðarskyni. Enda þótt fyrirtækið samþykkti að dulkóða nöfn einstaklinga olli skortur á upplýsingaleynd áhyggjum af samskiptum lækna og sjúklinga og notkun persónuupplýsinga í viðskiptaskyni. Í nóvember viðurkenndi fyrirtækið að viðvarandi andstaða lækna og erfiðleikar við að koma til móts við kröfur Persónuverndar um öryggisvottun kæmi að öllum líkindum í veg fyrir að hægt væri að ljúka gerð miðlægs gagngrunns sem ætlað væri að geyma ættfræðiupplýsingar, erfðafræðilegar upplýsingar og læknaskýrslur um meiri hluta þjóðarinnar. Enn eitt bakslag fyrir fyrirtækið var úrskurður Hæstaréttar um rétt dóttur til að koma í veg fyrir að læknaskýrslur um látinn föður hennar færu inn í gagnagrunninn, er byggðist á friðhelgi einkalífs. 

2. hluti  Virðing fyrir frelsi einstaklingsins, þar með talið:

a)  Tjáningarfrelsi í ræðu og riti

Stjórnarskráin kveður á um tjáningarfrelsi í ræðu og riti, þar með talið akademískt frelsi, og stjórnvöld virtu almennt þann rétt. Óháðir fjölmiðlar, virkt dómskerfi og lýðræðislegt stjórnmálakerfi tryggja í sameiningu tjáningarfrelsi í ræðu og riti, þar með talið akademískt frelsi.

Frjálsir fjölmiðlar voru að störfum og höfðu uppi ýmiss konar sjónarmið án íhlutunar stjórnvalda.

Löggjöfin bannar framleiðslu, sýningu, dreifingu eða sölu á ofbeldiskvikmyndum þar sem tilgreint er að sýndar séu misþyrmingar eða hrottaleg dráp á mönnum eða dýrum. Auk þess lagði sex manna kvikmyndaeftirlit, tilnefnt af menntamálaráðherra, mat á allar kvikmyndir áður en þær voru sýndar og flokkaði þær samkvæmt hæfi þeirra fyrir börn og unglinga.

Ótakmarkaður aðgangur að Internetinu stóð öllum til boða.

b)  Réttur til að stofna félög og koma saman með friðsamlegum hætti.

Stjórnarskráin kveður á um tjáningarfrelsi í ræðu og riti og stjórnvöld virtu almennt þann rétt; lögreglan stöðvaði þó mótmæli nokkurra aðila sem báru skilti gegn NATO við hátíðarhöldin á 17. júní. Lögreglan eyðilagði skiltin og flutti viðkomandi aðila með valdi frá hátíðarsvæðinu. Enda þótt lögreglunni sé heimilt að stöðva mótmæli ef grunur leikur á að mótmælendur hvetji til óeirða, sögðu vitni að engin ógn hefði virst stafa af þessum aðilum.

Í júní greindi Persónuvernd dómsmálaráðuneytinu frá því að ráðuneytið hefði með ólögmætum hætti látið lögreglu og flugfélög fá skrá yfir fylgismenn Falun Gong sem í kjölfarið neitaði milli 110 og 120 Falun Gong iðkendum um inngöngu í landið í júní 2002. Lögmaður þeirra fór fram á að dómsmálaráðherra bæði hópinn afsökunar opinberlega, að öðrum kosti yrði höfðað mál. Umboðsmaður Alþingis tók að sér að rannsaka málið að beiðni lögmannsins. Rannsókninni var ólokið í árslok þar sem umboðsmaðurinn var að bíða eftir skýringu forsætisráðherra á lagalegum forsendum þess að stjórnvöld hefðu komið í veg fyrir að fylgismenn Falun Gong fengju að ganga um borð í flugvélar til Íslands. Bráðabirgðaniðurstaða umboðsmanns var sú að löggjöfin heimili yfirvöldum að hindra komu hugsanlegra mótmælenda til landsins og að öðrum kosti sé koma þeirra til landsins háð því skilyrði að þeir undirriti samkomulag um að fylgja fyrirmælum lögreglu. Mannréttindasinnar lögðu fram kvörtun þess eðlis að niðurstaða umboðsmanns skapi það fordæmi að stjórnvöld hafi frjálsar hendur í hvert sinn sem lögreglan telur að almenningi stafi ógn af einhverjum hópi.

c) Trúfrelsi

Stjórnarskráin kveður á um trúfrelsi og stjórnvöld virtu almennt þessi réttindi. Ríkið studdi, m.a. fjárhagslega, hin opinberu trúarbrögð landsmanna, lúterstrúna.

Ríkið greiddi hinum 146 prestum þjóðkirkjunnar laun milliliðalaust, en þeir eru opinberir embættismenn sem heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið; kirkjan var þó með sjálfstjórn í innri málum. Ríkisstjórnin greiddi ekki laun lúterskra presta sem þjónuðu í kirkjum sem ekki eru í eigu ríkisins, þ.e. fríkirkjum.

Öllum ríkisborgurum 16 ára og eldri er skylt að greiða kirkjuskatt, um 7.800 krónur á ári. Ef um er að ræða einstaklinga sem eru ekki skráðir í trúfélag eða tilheyra trúfélagi sem ekki er skráð og stjórnvöld hafa ekki viðurkennt, rennur framlag þeirra til veraldlegrar stofnunar, Háskóla Íslands.

Til að trúfélög fái skráningu hjá stjórnvöldum þurfa þau að hlýða ákveðnum skilyrðum og starfsreglum samkvæmt löggjöfinni. Slíkt fyrirkomulag var nauðsynlegt til að stjórnvöld létu tiltekið hlutfall af kirkjuskattinum renna til annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar. Löggjöfin gildir einungis um trúfélög sem sækjast eftir að verða, eða eru þegar, opinberlega viðurkennd og skrásett. Engar kröfur voru gerðar til óskrásettra trúfélaga sem höfðu sömu réttindi og aðrir hópar í þjóðfélaginu og þau sættu ekki takmörkunum.

Samkvæmt lögum ber að kenna kristinfræði í almennum skólum; nemendur geta þó fengið undanþágu frá því.

Nánari upplýsingar er að finna í alþjóðlegri skýrslu um trúfrelsi frá 2003 (International Religious Freedom Report).

d) Ferðafrelsi innanlands, ferðalög erlendis, flutningur úr landi og heimflutningur

Stjórnarskráin kveður á um þessi réttindi og stjórnvöld virtu þau almennt.

Enda þótt hvorki stjórnarskráin né löggjöfin kveði á um veitingu landvistarleyfis fyrir einstaklinga sem uppfylla skilgreiningu Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951 um stöðu flóttamanna og bókunarinnar frá 1967, þá veitti ríkisstjórnin flóttamönnum landvistarleyfi og vernd gegn ofsóknum. Ríkisstjórnin hafði samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og önnur mannúðarsamtök um aðstoð við flóttamenn. Í janúar tóku gildi lög um útlendinga sem kveða á um veitingu landvistarleyfis og réttarstöðu flóttamanns; lögin kveða á um að aðeins Útlendingastofnun sé heimilt að hafna umsóknum flóttamanna um landvistarleyfi.

Á árinu 2001 varð landið hluti af Schengen-svæðinu sem tryggir frjálsa för yfir landamæri, og var þá fellt niður eftirlit með ferðum manna frá hinum Schengen-ríkjunum inn í landið.

Stjórnvöld hafa ekki mótað stefnu varðandi tímabundna vernd fyrir þá einstaklinga sem ekki uppfylla skilgreiningu Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna frá 1951 um stöðu flóttamanna og bókunarinnar frá 1967 vegna þess að slík mál hafa sjaldan komið til kastanna. Útlendingastofnun og Rauði kross Íslands (sem vistaði og aðstoðaði umsækjendur um landvistarleyfi samkvæmt samningi við stjórnvöld) greindu frá því að 80 einstaklingar hefðu sótt um landvistarleyfi á árinu (samanborið við 118 árið 2002). Af þeim voru 23 sendir til annarra landa, 26 drógu umsókn sína til baka og 21 var neitað um landvistarleyfi. Í árslok voru umsóknir sjö einstaklinga enn til meðferðar. Þrír einstaklingar fengu eins árs dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Flestir umsækjendur sóttu um landvist eftir að inn í landið var komið en ekki á alþjóðlegu svæði flugstöðvarinnar. Þegar landamæraverðir hleypa umsækjendum inn í landið verða þeir umsvifalaust að koma þeim í umsjá Rauða krossins og Útlendingastofnunar sem annast þá og sér um málefni þeirra. Úrvinnsla á umsóknum um landvist getur tekið að minnsta kosti ár og á því tímabili áttu umsækjendur rétt á heilbrigðisþjónustu sem er niðurgreidd af ríkinu, en máttu ekki ráða sig í vinnu eða senda börn sín í almenna skóla.

Í mars tóku stjórnvöld á móti 24 flóttamönnum frá Serbíu á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld eru ekki með neinar ákveðnar kvaðir sem flóttamenn þurfa að uppfylla og endurmeta stöðu þeirra árlega, en þeir starfshættir sættu gagnrýni mannréttindasinna. Rauði kross Íslands vistaði flóttamennina og aðstoðaði þá við að afla sér atvinnu og aðlagast samfélaginu. Flóttamenn eiga rétt á fríu húsnæði og aðstöðu í eitt ár, auk heilbrigðisþjónustu og félagslegra bóta. Fulltrúar Rauða krossins sögðu að heimamenn í viðkomandi sveitarfélögum tækju flóttamönnunum vel.

3. hluti:  Virðing fyrir pólitískum réttindum: Réttur landsmanna til stjórnarskipta

Stjórnarskráin kveður á um að landsmönnum sé frjálst að skipta um ríkisstjórn með friðsamlegum hætti, og landsmenn nýttu þann rétt í reglubundnum, frjálsum kosningum þar sem almennur kosningaréttur gilti. Alþingiskosningar fóru fram í maí.

Frá árinu 1991 hafa mið- og hægriflokkar setið í stjórn. Eftir kosningarnar í maí voru nítján þingmenn af 63 konur og þrjár konur sátu í tólf manna ríkisstjórn. Í Hæstarétti sem skipaður er níu aðilum voru tvær konur. Útlendingar sem haft hafa löglega búsetu í landinu í fimm ár (þrjú ár fyrir Norðurlandabúa) eiga rétt á að kjósa í sveitarstjórnarkosningum.

4. hluti:  Afstaða stjórnvalda gagnvart alþjóðlegum og óopinberum rannsóknum á meintum mannréttindabrotum

Fjöldi innlendra sem alþjóðlegra mannréttindahópa starfaði almennt án íhlutunar stjórnvalda við að rannsaka og birta niðurstöður sínar í mannréttindamálum. Embættismenn á vegum hins opinbera voru samvinnuþýðir og jákvæðir gagnvart viðhorfum þeirra. Óháður umboðsmaður, valin af Alþingi, fylgist með og gerir stjórnvöldum sem og sveitarstjórnum grein fyrir gangi mála  til að tryggja að þeir sem búa í landinu njóti sömu verndar, hvort sem um ríkisborgara eða útlendinga er að ræða. Einstaklingar geta komið á framfæri kvörtunum varðandi ákvarðanir, verklag og framkomu opinberra starfsmanna og ríkisstofnana við umboðsmanninn. Umboðsmaðurinn getur krafist þess að fá í hendur opinberar skýrslur, skjöl og skrár, getur krafið embættismenn um vitnaskýrslu og hefur aðgang að opinberum svæðum. Enda þótt yfirvöld þurfi ekki að líta á niðurstöður umboðsmannsins sem bindandi hefur tillögum hans venjulega verið fylgt. Einnig var starfandi umboðsmaður barna (sjá 5. hluta).

5. hluti:  Mismunun vegna kynþáttar, kyns, fötlunar, tungumáls eða félagslegrar stöðu

Stjórnarskráin bannar mismunun vegna ofangreindra atriða. Landsmenn eru afar jafnréttissinnaðir og setja sig á móti hvers konar mismunun.

Konur

Bannað er með lögum að beita heimilisofbeldi og nauðgun, þar með talið nauðgun innan hjónabands; ofbeldi gegn konum var þó viðvarandi vandamál og hópnauðganir héldu áfram að valda áhyggjum. Tölfræðilegar upplýsingar frá lögreglunni bentu til þess að ofbeldi gegn konum, þar með talin nauðgun og kynferðisleg áreitni, væri fátítt; sá fjöldi kvenna sem leitaði læknishjálpar og sóttist eftir aðstoð benti þó til að í mörgum tilvikum væri ekki lögð fram kæra. Árlega leita allt að 100 konur eftir tímabundnu húsnæði hjá Kvennaathvarfinu, einkum vegna heimilisofbeldis. Þar var um 367 skjólstæðingum veitt ráðgjöf á tímabilinu frá janúar og fram í nóvember. 496 skjólstæðingar leituðu til Stígamóta á árinu, þar af 251 kona sem leitaði aðstoðar í fyrsta sinn, og var það 13 prósent aukning annað árið í röð.

Stjórnvöld veittu fjármagni til ýmiss konar úrræða og samtaka sem komu fórnarlömbum ofbeldis til hjálpar. Reykjavíkurborg styrkti að hluta til slíka þjónustu og aðstoðaði einnig innfluttar konur sem voru beittar heimilisofbeldi, útvegaði þeim húsnæði í neyðartilvikum, og veitti þeim ráðgjöf og upplýsingar um lagalegan rétt þeirra. Dómstóll gat gefið út handtökuskipun, en kvartað var yfir að slíkt væri aðeins gert í ítrustu neyð. Fórnarlömb kynferðisglæpa áttu samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála rétt á réttargæslumanni til að veita þeim upplýsingar um lagalegan rétt þeirra og aðstoð við að höfða mál gegn meintum árásarmanni; meirihluti fórnarlamba hætti þó við að leggja fram kæru eða óskaði ekki eftir réttarhöldum, meðal annars til að forðast óæskilega athygli. Sumir heimamenn sem láta sig mannréttindi varða töldu létta dóma við sakfellingu vera ástæðu þess að sjaldan væru lagðar fram kærur: Hámarksrefsing fyrir nauðgun er 16 ára fangelsisvist, en þeir dómar sem venjulega falla eru í raun mun nær lágmarksrefsingu sem er 1 árs fangelsisvist.

Vændi er ekki ólöglegt, en ólöglegt er að stunda vændi sem aðaltekjulind. Einnig er ólöglegt að hafa milligöngu um kaup eða sölu á kynlífi.

Talið var að nokkrar erlendar konur kynnu að hafa verið keyptar til landsins til að starfa sem dansmeyjar í nektarklúbbum (sjá f-lið 6. hluta).

Rúmlega 80 prósent kvenna tóku þátt í atvinnulífinu. Að hluta til endurspeglaði það hið niðurgreidda dagvistunarkerfi í landinu sem gerði foreldrum viðráðanlegra og þægilegra að starfa utan heimilisins. Lögin kveða á um að vinnuveitendur ráði konur til starfa og stuðli að starfsframa þeirra á starfsvettvangi þar sem þær eru í minnihluta, að því tilskildu að þær standi karlumsækjendum að öllu leyti jafnfætis. Enda þótt lögin kveði á um sömu laun fyrir sömu vinnu ríkti launamismunur milli karla og kvenna. Samkvæmt einu fjölmennasta stéttarfélagi landsins þénuðu konur að meðaltali 14 prósent minna en karlar á árinu. Nokkrar kvenréttindakonur vöktu einnig athygli á því að konum hefði fækkað á þingi eftir kosningarnar í maí og væru nú innan við þriðjungur þingmanna (sjá 3. hluta).

Í janúar gengu í gildi lög sem heimila bæði mæðrum og feðrum að taka 3 mánaða fæðingarorlof við fæðingu barns, auk 3 mánaða til viðbótar sem hvort foreldrið sem er getur nýtt sér eða þeir skipt á milli sín. Orlofsgreiðslur nema 80 prósentum af venjulegum launum. Nýju fæðingarorlofsreglurnar gilda jafnt innan einkageirans sem hins opinbera.

Stjórnvöld fjármögnuðu rekstur Jafnréttisstofu, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið, til að hafa eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Enn fremur veitti Jafnréttisstofa stjórnvöldum og sveitarstjórnum, stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og frjálsum félagasamtökum upplýsingar og fræðslu á sviði jafnréttismála. Félagsmálaráðherra skipar kærunefnd jafnréttismála til að fjalla um og gefa rökstutt álit um hvort ákvæði laganna hafa verið brotin; niðurstöður nefndarinnar eru ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds. Félagsmálaráðherra skipar einnig jafnréttisráð sem gerir tillögur um jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaðinum, og í því eiga sæti níu fulltrúar sem tilnefndir eru af kvennasamtökum, Háskóla Íslands og stéttarfélögum og faghópum.

Börn

Stjórnvöld létu sér mjög annt um réttindi og velferð barna; nægu fjármagni var veitt til almenna skólakerfisins og heilbrigðisþjónustunnar. Skólaskylda er til 15 ára aldurs og framhaldsskólaganga til stúdentsprófs er nemendum að kostnaðarlausu. Um það bil 85 prósent nemenda stunduðu áfram nám í framhaldsskólum. Ókeypis meðgöngu- og ungbarnaeftirlit, sem og mikið niðurgreidd barnagæsla var veitt á vegum stjórnvalda. Umboðsmaður barna, sem er tilnefndur af forsætisráðherra en óháður stjórnvöldum, stóð vörð um réttindi, hagsmuni og velferð barna, meðal annars með því að hafa áhrif á lagasetningu, ákvarðanir stjórnvalda og viðhorf almennings. Við rannsóknir á kærum hafði umboðsmaðurinn aðgang að öllum stofnunum og samtökum á landinu, opinberum sem einkareknum, sem hýsa börn eða annast þau á einhvern hátt. Niðurstöður umboðsmannsins voru þó ekki lagalega bindandi fyrir aðila að deilumálum.

Mannréttindasinnar, þar með talið Barnaheill, héldu áfram að gagnrýna gerð gagnagrunns um heilbrigðismál sem náði til barna. Stjórnvöld heimiluðu að læknaskýrslur barna undir 18 ára aldri færu sjálfkrafa inn í gagnagrunninn nema lögráðamenn þeirra færu fram á annað. Við átján ára aldur getur fólk valið að segja sig úr gagnagrunninum, en ekki er hægt að fjarlægja þaðan upplýsingar sem þegar er búið að vista (sjá f-lið 1. hluta).

Í janúar hvatti nefnd S.Þ. um réttindi barna stjórnvöld til að veita fjölskyldum fatlaðra barna meiri stuðning og gera ráðstafanir til að aðstoða börn innflytjenda og börn af erlendum uppruna, en hátt hlutfall þeirra hættir námi í framhaldsskólum.

Greint var frá nokkrum dæmum um misnotkun á börnum, enda þótt ekki væru nein merki um slíka misnotkun í samfélaginu. Hin ríkisrekna Barnaverndarstofa hafði umsjón með rekstri átta meðferðarheimila og greiningarstöðvar fyrir ólögráða börn sem orðið hafa fyrir misnotkun og eiga um sárt að binda. Hún samhæfði starf um 34 nefnda um land allt sem voru ábyrgar fyrir barnaverndarmálum (t.d. vistun hjá fósturforeldrum) á viðkomandi svæðum. Margar þessara nefnda höfðu ekki beinan aðgang að sérfræðingum á sviði kynferðislegs ofbeldis. Ein þessara nefnda varð fyrir opinberri gagnrýni í ágúst þegar héraðsdómstóll dæmdi mann til 3 ára fangelsisvistar fyrir að hafa beitt barn kynferðislegu ofbeldi á fjögurra ára tímabili. Í vitnisburði við réttarhöld yfir manninum kom fram að skólahjúkrunarfræðingur hafði tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd að misnotkun hefði átt sér stað 6 mánuðum áður en lögregla og dómsyfirvöld fengu vitneskju um málið og gerðu viðeigandi ráðstafanir. Barnaverndarstofa hóf rannsókn á því hvers vegna nefndin brást ekki við í þessu máli, en til að vernda einkalíf barnsins, var ekki greint frá niðurstöðum hennar.

Til að hraða lögsókn vegna kynferðisbrota gegn börnum og draga úr því áfalli sem börn verða fyrir stóðu stjórnvöld áfram að rekstri Barnahúss. Barnahúsinu, sem annaðist um 165 tilvik á ársgrundvelli (tvo þriðju hluta allra tilvika á árinu), var ætlað að skapa traust og öruggt umhverfi þar sem börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi eiga auðvelt með að tjá sig. Lögregla, saksóknarar, dómarar, læknar og starfsmenn barnaverndarnefnda komu þar sameiginlega að málum. Héraðsdómarar þurftu þó ekki að nota Barnahúsið og máttu þess í stað vinna að skýrslutökum í dómshúsinu, en þeir sem bera hag barna fyrir brjósti voru ekki sáttir við þá ráðstöfun.

Fatlaðir einstaklingar

Hvergi kom fram að fötluðum einstaklingum væri mismunað í starfi, námi eða öðrum vettvangi á vegum ríkisins. Lögin kveða á um rétt slíkra einstaklinga á allri almennri þjónustu á landsvísu sem og innan sveitarfélaga og á aðstoð við að lifa og starfa með eðlilegum hætti í samfélaginu. Lögin kveða einnig á um að fatlaðir einstaklingar hafi forgang við ráðningu í opinber störf, ef þeir eru jafnhæfir eða hæfari en aðrir umsækjendur; talsmenn þeirra héldu því þó fram að þrátt fyrir almennt viðtekna starfshætti og innleiðingu laga væru réttindi fatlaðra ekki vernduð meira en svo að fatlaðir væru farnir að mynda meiri hluta fátæks fólks í landinu.

Byggingarreglugerð kveður á um að almenningsaðstaða og opinberar byggingar, m.a. lyftur, eigi að vera aðgengilegar fyrir þá sem nota hjólastól; að við opinberar byggingar sé eitt prósent bílastæða (a.m.k. eitt stæði) frátekið fyrir fatlaða; og að hiti skuli lagður í gangstéttir fyrir framan aðalinngang slíkra bygginga eftir því sem tök eru á svo að þar festi ekki snjó og hálka myndist. Refsað skal fyrir brot á þessari reglugerð með fjársekt eða fangelsisdómi í allt að 2 ár; Öryrkjabandalagið lagði þó fram kvörtun um að þessu væri ekki fylgt eftir með reglubundnum hætti og að yfirvöld mætu vanefndir sjaldan til refsingar.

Á árinu 2001 fyrirskipaði Alþingi hækkun á tekjutryggingu öryrkja sem eiga vinnufæran maka, en greiðslur úr tryggingasjóði fóru áfram fram samkvæmt lítillega breyttri könnun á fjárhag. Öryrkjabandalagið véfengdi lögin fyrir rétti og í október úrskurðaði Hæstaréttur að greiða mætti tekjutengdar bætur og að stjórnvöld skulduðu kröfuhöfum bætur aftur í tímann vegna greiðslna sem stjórnvöld inntu ekki af hendi á árunum 1999-2000, en úrskurðurinn byggðist á því að ákvæði stjórnarskrárinnar hefðu verið brotin. Í desember greiddu stjórnvöld kröfuhöfum þessar bætur.

Nokkrir talsmenn geðheilbrigðismála gagnrýndu stjórnvöld fyrir að sinna ekki nægilega málefnum þeirra sem eiga við andlega vanheilsu að stríða, en fjöldi þeirra er á biðlistum vegna búsetuúrræða og atvinnumöguleika, enda þótt réttindi þeirra séu tryggð samkvæmt lögum. Talsmenn geðfatlaðra staðhæfðu að hið ríkisrekna heilbrigðiskerfi ætlaði of fá sjúkrarými fyrir bráðainnlagnir og bætti þar með gráu ofan á svart þar sem forvarnarstarf og eftirmeðferð fyrir geðfatlaða væri einnig af skornum skammti.

Minnihlutahópar – vegna þjóðernis, kynþáttar eða uppruna

Þar sem þjóðin hefur að mestu einsleitt yfirbragð voru innflytjendur sem hingað koma vegna fjölskyldu- eða atvinnumála þeim mun sýnilegri. Í árslok 2002 bjuggu hér 10.200 íbúar af erlendum uppruna (3,5 prósent þjóðarinnar). Margir þeirra sem komu til tímabundinna starfa voru frá Asíu og Mið- og Austur-Evrópu, og Útlendingastofnun vænti þess að flestir myndi sækjast eftir að fá dvalarleyfi til frambúðar í stað þess að snúa aftur til heimkynna sinna.

Hugtakið nýbúar hefur fengið neikvæða merkingu og var í auknum mæli notað um innflytjendur af öðrum litarhætti. Greint var frá því að konur af asískum uppruna yrðu fyrir aðkasti á almannafæri á kvöldin og kallaðar vændikonur, börnum sem tilheyra minnihlutahópum var strítt og þau sögð hafa verið keypt á Internetinu, og ríkisborgarar sem eiga erlenda maka sögðust hafa fengið nafnlausar hótanir.

Rauði kross Íslands sá um rekstur Alþjóðahússins í Reykjavík í því skyni að aðstoða útlendinga við að aðlagast aðstæðum í landinu. Þar var boðið upp á þýðingar, kennslu, upplýsingaleit og ráðgjafarþjónustu án endurgjalds. Félagsmálaráðuneytið starfrækti Fjölmenningarsetur á Ísafirði sem auðveldaði heimamönnum að eiga samskipti við íbúa af erlendum uppruna og annaðist stuðningsþjónustu fyrir þá síðarnefndu í dreifbýlinu.

Í skýrslu sem kom út í júlí komst Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi að þeirri niðurstöðu að aðstæður innflytjenda „séu ekki með öllu viðunandi“ og lagði til að stjórnvöld könnuðu útbreiðslu kynþáttafordóma og mismununar í samfélaginu og innleiddi eða uppfærði viðeigandi lagasetningar. Bent var sérstaklega á tilvik þar sem fólki úr minnihlutahópum var neitað um aðgang að opinberum stöðum, svo sem skemmtistöðum, og að komið væri fram við fólk af erlendum uppruna sem vinnuafl fremur en fullgilda aðila að samfélaginu.

6. hluti  Réttindi launþega

            a.            Réttur til að stofna félagasamtök

Stjórnarskráin kveður á um rétt launþega til að stofna stéttarfélög, setja saman eigin stofnsamning og reglur, velja sér leiðtoga, móta stefnu og birta skoðanir sínar; launþegar nýttu sér þessi réttindi. Stéttarfélög voru óháð stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum. Um það bil 85 prósent allra launþega á vinnumarkaði voru meðlimir í stéttarfélagi.

Félagsdómur leysti allan ágreining um samningamál og réttindi samkvæmt lögum sem banna fordóma gegn stéttarfélögum. Samkvæmt lögum verða vinnuveitendur sem eru fundnir sekir um fordóma gegn stéttarfélögum að endurráða starfsmenn sem reknir hafa verið fyrir að starfa innan stéttarfélaga; í raun er þó oft erfitt að færa sönnur á ákæru.

Samkvæmt lögum er stéttarfélögum heimilt að vera í alþjóðlegum tengslum og þau tóku virkan þátt í norrænu, evrópsku og alþjóðlegu stéttarfélagsstarfi.

            b.            Rétturinn til að bindast samtökum og ganga sameiginlega til samninga

Hvorki er komið í veg fyrir aðild að stéttarfélagi með lögum né í reynd. Samkvæmt lögum er vinnuveitendum skylt að halda til baka félagsgjöldum (1 prósenti af heildarlaunum) af launum allra starfsmanna, hvort sem þeir eru í stéttarfélagi eða ekki, sem renna í örorku-, verkfalls- og eftirlaunasjóði og aðra sjóði sem allir launþegar eiga rétt á greiðslum úr.

Stéttarfélög og vinnuveitendasamtök komast með reglubundnu millibili að almennu kjarasamkomulagi um laun, vinnutíma og önnur skilyrði. Það eru þessir samningar en ekki löggjöfin sem ákvarða lágmarkslaun flestra launþega. Stéttarfélögin gerðu nýja kjarasamninga í stað þeirra sem runnu út á árinu, en aðrir samningar verða endurnýjaðir á árinu 2004. Stjórnvöld áttu lítils háttar þátt í samningaumræðum þar sem þau veittu aðstoð við sáttaumleitanir í fáeinum tilvikum (með tilstilli Sáttasemjara ríkisins).

Í mars úrskurðaði Alþjóðavinnumálstofnunin Alþýðusambandi Íslands í hag vegna sjómannaverkfallsins árið 2001; Alþjóðavinnumálstofnunin úrskurðaði að stjórnvöld hefðu brotið gegn frjálsri kjarasamningagerð og mæltist til þess að stjórnvöld gerðu breytingar á almennri kjarasamningagerð til að komast hjá lagalegum afskiptum í framtíðinni.

Stéttarfélög hafa verkfallsrétt, að undanskildum tilteknum hópum launþega í opinbera geiranum sem stunda störf sem varða heilbrigðis- eða öryggismál. Engin verkföll voru á árinu.

Ekki er um nein frjáls útflutningssvæði að ræða.

            c.            Bann við nauðungarvinnu

Nauðungarvinna er bönnuð með lögum, einnig hvað varðar börn, og hvergi kom fram að hún ætti sér stað.

            d.         Börn sem vinnukraftur og lágmarksaldur starfsfólks

Bannað er með lögum að ráða börn undir 16 ára aldri í verksmiðjuvinnu, í sjómennsku eða í önnur þau störf sem eru áhættusöm eða teljast erfiðisvinna; farið var eftir því. 14 og 15 ára unglinga má ráða í hlutastörf og sumarvinnu í létt og hættulaus störf. Þeir mega ekki vinna fleiri vinnustundir en fullorðnir sem gegna sams konar starfi. Vinnueftirlit ríkisins gætti þess að reglum um vinnu barna og unglinga væri framfylgt að öllu leyti.

             e.            Ásættanleg starfsskilyrði

Lögin kveða ekki á um lágmarkslaun, en þau lágmarkslaun sem samið var um í ýmsum kjarasamningum gilda sjálfkrafa fyrir alla starfsmenn í viðkomandi störfum, hvort sem þeir eru í stéttarfélagi eða ekki. Kjarasamningar sköpuðu launþega og fjölskyldu hans mannsæmandi lífskjör.

Fjöldi vinnustunda á viku var 40 klukkustundir, að meðtöldum launuðum vinnuhléum sem numu allt að 3 klukkustundum á viku. Greiða skal yfirvinnulaun ef unnið er lengur en 8 klukkustundir á dag. Starfsmenn áttu rétt á 11 klukkustunda löngum hvíldartíma á sólarhring og einum frídegi í viku. Við tilteknar aðstæður er vinnuveitendum heimilt að stytta 11 klst. hvíldartíma í lágmark 8 klst., en starfsmenn urðu þá að fá 1,5 tíma uppbót fyrir hverja klukkustund sem hvíldartíminn var styttur um. Einnig er þeim heimilt að fresta frídegi starfsmanns um eina viku.

Alþingi kvað á um heilbrigðis- og öryggiskröfur og félagsmálaráðuneytið stýrði og framfylgdi þeim kröfum með atbeina Vinnueftirlits ríkisins sem gat látið loka vinnustöðum uns þar var komið til móts við öryggis- og heilbrigðiskröfur. Starfsmenn höfðu sameiginlegan en ekki einstaklingsbundinn rétt til að neita að vinna á vinnustöðum sem uppfylltu ekki kröfur um starfsöryggi og heilbrigði. Ólögmætt var að reka starfsmenn sem greindu frá aðstæðum sem uppfylltu hvorki kröfur um öryggi né heilbrigði.

Fulltrúar stéttarfélaga og fjölmiðlar greindu frá því að ítalska verktakafyrirtækið Impregilo hefði ekki greitt erlendum starfsmönnum sömu laun og öðrum við Kárahnjúkavirkjun. Fyrirtækið réð starfsmenn hjá portúgölskum atvinnumiðlunum sem útbjuggu alls konar samninga til að villa um fyrir bæði starfsmönnum og eftirlitsaðilum. Aðstæður hinna erlendu starfsmanna voru bágbornar og stjórnvöld í landinu höfðu engin úrræði til að fylgjast með hvort verktakinn færi eftir reglugerðum um heilbrigðis- og öryggismál. Stjórnvöld hótuðu að hætta að veita Impregilo atvinnuleyfi fyrir erlenda starfsmenn sem hingað koma ef þeir betrumbættu ekki aðstæður á staðnum og fyrirtækið fór smám saman að hlýða settum reglum. Í september var sagt að Impregilo hefði rekið starfsmann sem neitaði að skrifa undir falsaðan samning. Vinnumálastofnun aðstoðaði starfsmanninn við að fá annað starf og nýtt starfsleyfi og hóf nákvæmt eftirlit með Impregilo til að tryggja að fyrirtækið greiddi laun samkvæmt opinberum samningum.

 f.            Verslun með fólk

Samkvæmt lögum sem gengu í gildi 10. mars er verslun með fólk bönnuð; þó gengu sögusagnir um að verslað væri með konur í gróðaskyni.

Eftir breytingu í mars á almennum hegningarlögum er kveðið á um að „hverjum þeim sem gerist sekur um þátttöku í mansali í þeim tilgangi að notfæra sér mann kynferðislega eða til nauðungarvinnu eða til að nema á brott líffæri hans skuli refsað fyrir mansal með allt að 8 ára fangelsi“. Réttarfar kveður á um að brotaþolar megi bera vitni gegn þeim stunda verslun með fólk á kostnað stjórnvalda.  Enginn hefur enn verið ákærður fyrir að mansal, enda þótt þeir sem slíkt stunda hafi verið sakfelldir fyrir að smygla útlendingum inn í landið.

Lögin kveða á um að framsal sé heimilt ef verknaður sem um er að ræða geti varðað fangelsi í meira en 1 ár; því væri heimilt samkvæmt lögum að vísa þeim úr landi sem ákærðir væru fyrir verslun með fólk milli landa.

Lögreglan, flugvallaryfirvöld og kvennasamtök greindu frá því að staðhæfingar væru uppi um verslun með konur til landsins, einkum í tengslum við þær erlendu konur sem hingað kæmu til að vinna í nektarklúbbum. Flestar þessara dansmeyja voru frá Eystrasaltslöndunum, en aðrar voru frá Mið- og Austur-Evrópu og Rússlandi. Engar tölulegar upplýsingar fengust um fjölda þeirra kvenna sem verslað var með né frá hvaða landi þær voru. Enda þótt mest hafi verið fjallað um Ísland sem hugsanlegan áfangastað kvenna sem verslað er með voru þó nokkur tilvik á árinu sem bentu til þess að landið væri einnig notað sem viðkomustaður við flutning á konum sem verslað er með milli Evrópu og Norður-Ameríku. Engar áreiðanlegar tölur voru til um fjölda þeirra kvenna sem hér er átt við.

Allir útlendingar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem hingað komu til að starfa sem dansarar verða fyrst að afla sér atvinnuleyfis sem gildir að jafnaði í 3 mánuði. Á árinu 2002 fækkaði erlendum dönsurum sem sóttu um atvinnuleyfi í kjölfar banns borgarstjórnar Reykjavíkur við svokölluðum einkadansi sem var aðeins dulið vændi. Hæstiréttur staðfesti þetta bann í febrúar og í kjölfarið var einnig lögleitt bann í öðrum sveitarfélögum; þar með voru gróðavonir þeirra sem flytja konur til landsins nánast að engu gerðar.

Fórnarlömb slíkrar verslunar gátu leitað hjálpar í Kvennaathvarfinu, Stígamótum og á Landspítalanum, en allar þær stofnanir eru ríkisreknar. Engin frjáls félagasamtök sáu eingöngu um að aðstoða fórnarlömb mansals og ekki var heldur um neitt formlegt hjálparstarf að ræða á vegum stjórnvalda. Nokkur frjáls félagasamtök fengu styrk frá ríkinu til að veita ráðgjafarþjónustu og útvega konum og börnum sem voru fórnarlömb ofbeldis eða kynferðislegrar misnotkunar húsaskjól. Mannréttindaskrifstofa Íslands, sem rekin er með ríkisstyrk, veitti einnig aðstoð í tilvikum þar sem um mansal var að ræða og vísaði málum áfram (sjá 5. hluta).

Dómsmálaráðuneytið og félagsmálaráðuneytið stóðu fyrir ráðstefnu um mansal í febrúar sem var liður í sameiginlegri herferð Norður-Eystrasaltsríkjanna gegn mansali. Í kjölfar ráðstefnunnar og þeirrar athygli sem hún hlaut í fjölmiðlum skipaði félagsmálaráðherra ráðgjafarnefnd til að samhæfa aðgerðir stjórnvalda gegn ofbeldi gagnvart konum.

back to top ^

Page Tools:

Printer_icon.gif Print this article

- English -
This content is also available in English.



 

    This site is managed by the U.S. Department of State.
    External links to other Internet sites should not be construed as an endorsement of the views or privacy policies contained therein.


Embassy of the United States