Vefur Al˛ingis Senda tˆlvupÛst til Siv Vefur FramsÛknarflokksins Ganga Ì flokkinn VefslÛir fiingm·l LÌf og starf ¡lit DagbÛkin Greinar og rÊur Pistlar Myndir
  Konur og St. Jósefsspítali

  31/01/2009

  Vegna mikilla þrenginga í efnahag þjóðarinnar leita ráðherrar landsins leiða til að hagræða og spara í rekstri ríkisins. Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, hefur af þessum sökum tekið nokkrar ákvarðanir m.a. um sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Ákvörðun ráðherra um lokun spítalans var tekin í miklum flýti án samráðs við hagsmunaaðila. Nefna má að bæjaryfirvöld í Hafnarfirði segja ekkert samráð hafa verið við sig og einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur opinberlega réttilega bent á að þingmenn hafi fyrst heyrt af ákvörðun ráðherra í fjölmiðlum.

  Rökþrota ráðherra

  Fyrr í þessum mánuði var haldinn afar fjölmennur borgarafundur í Íþróttahúsinu við Strandgötu undir heitinu "Stöndum vörð um St. Jósefsspítala". Fundurinn fór mjög vel fram, en þarna voru samankomnir hátt í tvöþúsund manns. Fundarmenn létu skoðanir sínar skýrt í ljós með málefnalegum og yfirveguðum hætti. Í upphafi fundar talaði heilbrigðisráðherra. Reyndi hann að færa rök fyrir þeirri ákvörðun að loka St. Jósefsspítala og opna þar þess í stað öldrunarþjónustu. Starfsemi spítalans yrði flutt bæði á sjúkrahúsið í Reykjanesbæ og Landsspítalann-háskólasjúkrahús. Röksemdir heilbrigðisráðherra voru ómarkvissar og ótrúverðugar. Ráðherra var rökþrota. Opinberlega hefur verið reynt að réttlæta lokun með því að húsnæði spítalans sé illa farið. Í skoðunarferð í síðustu viku í fylgd Dórotheu Sigurjónsdóttur, hjúkrunarstjóra, kom í ljós að slíkar yfirlýsingar eru úr öllu samhengi. Brýnast er að klæða einn gafl í göngudeildareiningunni en slíkt viðhald er eðlilegur hluti af rekstri stofnana.

  Grindarbotnsteymið

  Á borgarafundinum komu fram athyglisverðar upplýsingar sem snúa sérstaklega að stórum hópi kvenna. Í mörg ár hefur verið byggt upp öflugt teymi á spítalanum sem sérhæfir sig í meðferð á grindarbotnsvandamálum kvenna. Slík vandamál eru oft tengd fæðingum og geta valdið þvag og/eða hægðaleka hjá 70% kvenna á aldrinum 25-56 ára samkvæmt upplýsingum starfsmanna á skurð- og svæfingadeild spítalans. Eðli málsins samkvæmt eru þessi vandamál lítið rædd opinberlega því miður. Þetta teymi er það eina sinna tegundar í landinu og hefur hjálpað afar mörgum konum. Var fullyrt á fundinum að teymi þetta myndi leysast upp væri því splundrað með lokun spítalans. Eðlilegt er að ráðherra skýri framtíðarsýn sína hvað þessa þjónustu varðar.

  Hafnfirðingar verja spítalann

  Konur hafa lyft grettistaki í heilbrigðismálum þjóðarinnar eins og allir vita. Hópur kvenna hóf á sínum tíma söfnun fyrir byggingu Landsspítalans. Konur hafa verið í fararbroddi í uppbyggingu Barnaspítala Hringsins og hreyfingar nunna hafa stuðlað að uppbyggingu sjúkrastofnana s.s. Landakotsspítala, sjúkrahússins í Stykkishólmi og St. Jósefsspítala svo eitthvað sé nefnt. Árið 1991 stóð til að leggja St. Jósefsspítala niður. Þá skipulagði Bandalag kvenna í Hafnarfirði(BKH) undirskriftasöfnun þar sem öll heimili í Hafnarfirði voru heimsótt. Í þeirri söfnun kom í ljós að mjög mikil andstaða var við lokunaráformin. Þáverandi ráðherra tók tillit til stöðunnar og starfsemi St. Jósefsspítala fékk að halda áfram. Á borgarafundinum rifjaði Kristín Gunnbjörnsdóttir, formaður BKH, þessa sögu upp í skeleggri ræðu sinni. Mörg félög í Hafnarfirði hafa ásamt félögum allra stjórnmálaflokka í bænum ályktað gegn ákvörðun heilbrigðisráðherra um lokun St. Jósefsspítala. Þverpólitísk samstaða er gegn ákvörðun ráðherrans. Nú hafa 75% kosningabærra Hafnfirðinga einnig ritaði undir undirskriftalista gegn lokun St. Jósefsspítala. Af framsögðu er ljóst að heilbrigðisráðherra verður að bjóða upp á samráð um endurskoðun á ákvörðun sinni.