Home / Fréttir / Svíar gera úttekt á 350 almannavarnaskýlum á Gotlandi – ótti við kjarnorkuárás

Svíar gera úttekt á 350 almannavarnaskýlum á Gotlandi – ótti við kjarnorkuárás

Hér sést inngangur í almannavarnaskýli við Stokkhólm sem hefur verið breytt í gagnaver.
Hér sést inngangur í almannavarnaskýli við Stokkhólm sem hefur verið breytt í gagnaver.

Hermt er að sænsk stjórnvöld láti nú taka út ástand hundruð skýla til varnar vegna kjarnorkuárásar af vaxandi ótta við að Rússar grípi til vopna fyrir botni Eystrasalts. Frá þessu var skýrt í breska blaðinu The Independent miðvikudaginn 22. mars.

Sænska almannavarnastofnunin  hefur gefið fyrirmæli um að 350 almannavarnaskýli á Eystrasaltseyjunni Gotlandi verði skoðuð með hugsanlega notkun þeirra í huga. Fyrir nokkru ákvað sænska stjórnin að senda herlið til fastrar viðveru á Gotlandi eftir nokkurra ára hlé. Þá hefur einnig verið ákveðið að taka að nýju upp herskyldu karla og kvenna í Svíþjóð.

Almannavarnaskýlin eru hönnuð með það fyrir augum að geta varið fólk gegn höggbylgju og geislavirkni frá kjarnorkusprengju og einnig gegn efna- og sýklavopnum.

Mats Berglund, yfirmaður sænskra almannavarna, sagði í sænska ríkisútvarpinu Sveriges Radio að úttekt á skýlunum ætti að ljúka fyrir árslok.

Í skýlunum 350 er unnt að taka á móti 35.000 manns. Tæplega 60.000 manns búa á Gotlandi.

Alls voru gerð rúmlega 65.000 skýli í Svíþjóð í kalda stríðinu. Markmiðið var að auka öryggi borgaranna kæmi til kjarnorkustríðs.

Ákvörðunin um úttektina á ástandi skýlanna var tekin í ljósi viðvörunar frá sænsku leyniþjónustunni Säpo sem segir að öryggi landsins sé „ógnað á raunverulegan og alvarlegan hátt“.

Anders Thornberg, forstjóri Säpo, nefndi Rússa ekki sérstaklega þegar hættumatið var kynnt. The Independent segir hins vegar að öllum sé ljóst að aukinn öryggisviðbúnaður Svía stafi af hættu frá Rússlandi sem hafi magnast eftir innlimun Rússa á Krímskaga fyrir þremur árum.

 

Skoða einnig

ok-danske-bank

Peningaþvætti Danske Bank reginhneyksli Evrópu

Danske Bank birti miðvikudaginn 19. september skýrslu um peningaþvætti í útibúi bankans í Eistlandi. Lögfræðistofan …